5 algeng mistök við gellökkun heima

Það jafnast ekkert á við nýlakkaðar, glansandi neglur – og gellökkun heima er algjör snilld þegar maður nennir ekki eða hefur ekki tíma til að fara á stofu. 💅

Við höfum samt öll lent í því að eitthvað klikki – lakkið flagni, lampinn virðist ekki virka almennilega, eða burstinn sé orðinn stífur… hljómar þetta kunnuglega? Hér eru fimm algeng mistök sem fólk gerir þegar það notar gellakk heima – og einfaldar leiðir til að forðast þau 🙌

1. Að hafa opna gellakksflösku nálægt lampanum

Þetta er sennilega algengasta (og dýrkeyptasta) klúðrið. Gellakk byrjar nefnilega að harðna inni í flöskunni ef það kemst í snertingu við UV/LED ljós – jafnvel smá birta frá lampanum getur dugað til! Það er því alls ekki góð hugmynd að skilja flöskuna eftir opna á meðan þú ert með neglurnar undir lampanum - og ekki lakka þig í beinu sólarljósi heldur því það getur líka skemmt gellakkið.  


✔️ Lausnin: Ekki lakka þig í beinu sólarljósi, lokaðu flöskunni strax eftir að þú ert búin með hverja umferð og geymdu hana í öruggri fjarlægð frá lampanum. 

 

2. Að sleppa undirbúningnum

Það er kannski freistandi að byrja bara beint að lakka neglurnar og halda að þú sparir þér tíma á því. En undirbúningurinn skiptir öllu máli þegar kemur að endingu lakksins. Ef það er olía, raki eða óhreinindi á nöglinni endist lakkið mun skemur og getur jafnvel byrjað að flagna samdægurs.


✔️ Lausnin: Góður undirbúningur tekur bara örfáar mínútur og getur skipt sköpum! Strjúktu yfir neglurnar með handspritti, pússaðu létt yfir yfirborð þeirra og ýttu naglaböndunum til baka. Ef þú vilt hámarka endinguna er gott er að nota PREP og PRIMER á neglurnar. Fyrst er PREP borið á alla nöglina og síðan PRIMER bara við naglaböndin. Að lokum skaltu passa að koma ekki við neglurnar eftir undirbúninginn svo að það fari ekki húðfita á neglurnar.

 

3. Að setja of þykk lög

Við höfum öll gerst sek um þetta – maður vill fá litinn sterkan strax og setur of mikið á í byrjun. En það endar yfirleitt með því að lakkið harðnar ekki almennilega eða það myndast gárur eða bylgjur í lakkinu.


✔️ Lausnin: Lakkaðu frekar fleiri þunn lög og hertu vel á milli. Það kemur miklu betur út og lakkið endist lengur.

 

4. Að nota rangan lampa eða herða ekki nógu lengi

Lampar eru ekki allir eins og það skiptir öllu máli að nota góðan lampa! Ef þú notar rangan lampa eða herðir ekki nægilega lengi nær gellakkið ekki að harðna nægilega vel sem verður til þess að það klístrast eða hreinlega flagnar strax af. Ofnæmi getur einnig komið fram ef gellakk helst fljótandi og kemst í langvarandi snertingu við húðina í kringum nöglina.


✔️ Lausnin: Gakktu úr skugga um að lampinn sem þú notar passi við gellakkið sem þú ert að nota og fylgdu herslutímanum sem stendur á umbúðunum eða á heimasíðunni. Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við val á lampa: LED eða UV ljós, hversu margar perur eru í lampanum og hversu öflugur er hann? Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval af lömpum, skoða hér

 

5. Að bleyta hendurnar strax

Þó neglurnar séu tæknilega séð tilbúnar um leið og þú tekur þær úr lampanum eftir síðustu Top Coat umferðina er samt gott að leyfa þeim að jafna sig aðeins áður en þú ferð að vaska upp, þvo þér hendurnar eða hoppa í sturtu. Vatnið getur nefnilega dregið úr glansi og getur stytt endingu lakksins. 


✔️ Lausnin: Bíddu í ca. 10–15 mín áður en þú stingur höndunum í vatn. Þetta hjálpar við að halda lakkinu glansandi og endingargóðu.


Að lokum…

Það er svo þægilegt að geta lakkað sig heima – sérstaklega þegar maður búin að læra trixin og forðast þessi algengu mistök. Með réttu skrefunum færðu fallegar, fagmannlegar neglur sem endast í margar vikur 💖


Vantar þig rétta gellitinn, góðan lampa eða undirbúningsvörur? Kíktu á úrvalið á kiarasky.is – við erum með allt sem þú þarft til að negla þetta heima ✨

SKOÐA NÁNAR